Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 85. máls.

Þskj. 97  —  85. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




1. gr.

    Við 3. mgr. 21. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þeim er enn fremur heimilt að veita þjónustu í umboði annarra, svo sem vátryggingafélaga, lífeyrissjóða og annarra fjármálafyrirtækja, enda telji Fjármálaeftirlitið þá starfsemi hvorki skerða möguleika þeirra til þess að veita þjónustu samkvæmt starfsleyfi sínu né skerða möguleika þess til að hafa eftirlit með starfseminni. Skal Fjármálaeftirlitinu tilkynnt fyrir fram um áform viðkomandi svo að mat þess geti legið fyrir áður en veiting þjónustunnar hefst.

2. gr.

    61. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Skilgreining.


    Sparisjóður er sjálfseignarstofnun sem starfar sem fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum þessum. Honum er skylt að nota heitið „sparisjóður“ í firmanafni sínu og skilgreina í samþykktum sínum samfélagslegt hlutverk sitt. Stofnfjáreigendur í sparisjóði skulu vera a.m.k. 30. Ákvæði um lágmarksfjölda stofnfjáreigenda gildir þó ekki um sparisjóð sem er dótturfélag annars sparisjóðs eða að meiri hluta í eigu eins eða fleiri sveitarfélaga.
    Stofnfjáreigendur bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs umfram stofnfé sitt og eiga ekki hlutdeild í öðru eigin fé sparisjóðs en bókfærðu stofnfé eins og það er á hverjum tíma. Þeir eiga rétt á greiðslu arðs af stofnfé sínu í samræmi við reglur 68. gr.
    Að því leyti sem ekki er kveðið á um annað í lögum þessum skal beita ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 2/1995, um sparisjóði, eftir því sem við getur átt. Ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur eiga ekki við um sparisjóði.
    Sparisjóði sem starfar sem hlutafélag við gildistöku laga þessara er heimilt að nota heitið „sparisjóður“ í firmanafni sínu. Slíkum sparisjóði er enn fremur heimilt að eiga aðild að öryggissjóði skv. VI. kafla laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

3. gr.

    62. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Stofnun. Stjórn.


    Á stofnfundi sparisjóðs fer hver stofnandi með eitt atkvæði. Stofnfundur setur sparisjóði samþykktir. Í þeim skulu vera ákvæði sem varða sérstaklega hlutaðeigandi sparisjóð, svo sem:
     1.      heiti sparisjóðs,
     2.      heimili sparisjóðs, varnarþing,
     3.      heildarupphæð stofnfjár, skipting í stofnfjárhluti,
     4.      kosning sparisjóðsstjórnar, störf hennar,
     5.      helstu áherslur sparisjóðs varðandi samfélagslegt hlutverk hans,
     6.      breytingar á samþykktum,
     7.      slit á sparisjóði, ráðstöfun eigin fjár í því sambandi.
    Fundur stofnfjáreigenda er æðsta vald í málefnum sparisjóðsins og kýs honum stjórn. Stjórn ræður sparisjóðsstjóra sem er framkvæmdastjóri sparisjóðsins og ber ábyrgð á daglegum rekstri hans.

4. gr.

    63. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Stofnfjárbréf.


    Sparisjóðsstjórn gefur út stofnfjárbréf til þeirra sem skráðir eru fyrir stofnfjárhlutum. Stofnfjárbréf má ekki afhenda fyrr en hlutur er að fullu greiddur.
    Stofnfjárbréf skulu hljóða á nafn og tilgreina:
     1.      heiti sparisjóðs og heimilisfang,
     2.      númer og fjárhæð hlutar,
     3.      nafn, heimilisfang og kennitölu stofnfjáreiganda,
     4.      útgáfudag stofnfjárbréfs,
     5.      sérstök atriði er varða réttindi og skyldur stofnfjáreigenda.
    Stjórn sparisjóðsins skal færa skrá yfir stofnfjáreigendur og skal hún aðgengileg öllum. Sparisjóðsstjórn skal uppfæra skrána þegar breytingar verða á eignarhaldi stofnfjárbréfa.

5. gr.

    64. og 65. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    66. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Útgáfa og viðskipti með stofnfjárhluti.


    Fundur stofnfjáreigenda getur samþykkt aukningu stofnfjár í viðkomandi sparisjóði með útgáfu nýrra stofnfjárhluta. Til þess að heimilt sé að fjalla um aukningu stofnfjár á aðalfundi eða sérstökum fundi stofnfjáreigenda skal hafa verið boðað til fundarins með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal gera grein fyrir tillögu stjórnar um útgáfu nýrra stofnfjárhluta, þ.m.t. um heildarfjölda hluta, nafnverð hluta og útboðsgengi, greiðslukjör, ef einhver eru, áskriftartíma og áskriftarrétt. Lágmarksverð nýrra stofnfjárhluta skal vera jafnhátt og nafnverð stofnfjárhluta í viðkomandi sparisjóði.
    Í samþykktum sparisjóðs er heimilt að kveða á um forgangsrétt stofnfjáreigenda að aukningu.
    Framsal og önnur ráðstöfun stofnfjárhlutar í sparisjóði er heimil án takmarkana, sbr. þó ákvæði VI. kafla. Sparisjóðir skulu setja sér reglur um viðskipti með stofnfé sem samþykktar skulu af Fjármálaeftirlitinu. Því er heimilt að gefa út leiðbeinandi tilmæli um slík viðskipti.
    Nýr stofnfjáreigandi öðlast réttindi samkvæmt stofnfjárbréfinu þegar eigandabreyting hefur verið skráð skv. 3. mgr. 63. gr.
    Ef sparisjóður hefur gefið út nýtt stofnfé og hafi verið greitt meira en nafnverð fyrir útgáfuna skal fé það, sem greitt var umfram nafnverð, fært á yfirverðsreikning stofnfjár að frádregnum kostnaði sparisjóðsins af útgáfunni. Hann telst með óráðstöfuðu eigin fé sparisjóðs.

7. gr.

    67. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Lækkun stofnfjár.


    Að tillögu stjórnar sparisjóðs getur fundur stofnfjáreigenda tekið ákvörðun um lækkun stofnfjár til jöfnunar taps sem ekki verður jafnað á annan hátt. Fyrir slíkri ákvörðun þarf samþykki tveggja þriðju hluta atkvæða sem mætt er fyrir á fundi stofnfjáreigenda. Í fundarboði skal greina frá ástæðum fyrir lækkuninni og hvernig hún á að fara fram. Fjármálaeftirlitinu skal tilkynnt fyrir fram um fyrirhugaða lækkun stofnfjár.
    Ákvörðun fundar stofnfjáreigenda um lækkun skv. 1. mgr. tekur gildi þegar Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt hana.
    Ekki þarf að innkalla kröfur vegna lækkunar stofnfjár samkvæmt þessari grein.

8. gr.

    68. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Ráðstöfun hagnaðar.


    Aðalfundur sparisjóðs getur heimilað stjórn sparisjóðs að ráðstafa allt að 50% hagnaðar hans til hækkunar á nafnverði stofnfjár og arðgreiðslu til stofnfjáreigenda. Með hagnaði samkvæmt þessari grein er átt við meðaltalshagnað eftir skatta síðustu fimm reikningsára samkvæmt samþykktum ársreikningum. Aðalfundur má ekki ákveða að úthluta meiri arði en stjórn sparisjóðs leggur til eða samþykkir.
    Sé hagnaður, eins og hann er skilgreindur í 1. mgr., nýttur að einhverju leyti til beinnar arðgreiðslu til stofnfjáreigenda má arðgreiðslan að hámarki nema meðaltali hæstu almennra innlánsvaxta hjá öllum sparisjóðum auk allt að 8 prósentustiga.
    Heimild til ráðstöfunar hagnaðar skv. 1. og 2. mgr. er því aðeins fyrir hendi að um óráðstafað eigið fé sé að ræða í viðkomandi sparisjóði.

9. gr.

    69. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Útvistun verkefna.


    Sparisjóði er heimilt að útvista eftirfarandi verkefni, enda sé slíkt gert á almennum viðskiptalegum forsendum:
     a.      ráðgjöf um áhættustýringu,
     b.      rekstur upplýsingakerfa,
     c.      öryggiseftirlit,
     d.      starfsemi innri endurskoðunardeilda,
     e.      bakvinnsla, bókhald og skýrslugerð til eftirlitsstofnana,
     f.      lögfræðiráðgjöf, samningar og samskipti við birgja,
     g.      vöruþróun og markaðssamstarf um sameiginleg vörumerki,
     h.      fræðsla og upplýsingagjöf,
     i.      innlend og erlend greiðslumiðlun og þjónusta við erlend viðskipti.
    Í þeim tilfellum að fleiri en einn sparisjóður hefur útvistað verkefni skv. 1. mgr. til eins og sama aðila skulu gerðir samningar á milli hvers einstaks sparisjóðs og þess sem veitir þjónustuna. Slíkir samningar víkja ekki til hliðar skyldum þeim sem hver einstakur sparisjóður ber gagnvart lögum og reglum, eftirlitsaðilum, stofnfjáreigendum eða öðrum.
    Rísi ágreiningur um hvort starfsemi falli undir 1. mgr. sker Samkeppniseftirlitið úr.

10. gr.

    70.–76. gr. laganna falla brott.

11. gr.

    Á eftir orðunum „yfirverðsreikningur hlutafjár“ í 5. mgr. 84. gr. laganna kemur: yfirverðsreikningur stofnfjár.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 106. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                      Heimilt er að sameina sparisjóð við annað fjármálafyrirtæki sem hefur starfsleyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. þannig að sparisjóði verði slitið. Við sameiningu fá stofnfjáreigendur hlutabréf í hinu sameinaða fjármálafyrirtæki í samræmi við hlutfall stofnfjár af eigin fé sparisjóðsins. Endurgjald fyrir óráðstafað eigin fé sparisjóðsins, sé það fyrir hendi, skal lagt í sérstaka sjálfseignarstofnun sem skal hafa þann tilgang að rækja og stuðla að framgangi þeirra samfélagslegu verkefna sem samþykktir sparisjóðsins kveða á um. Skal endurgjald til sjálfseignarstofnunarinnar vera í formi peningagreiðslu eða með skuldabréfi til ekki lengri tíma en 10 ára. Áður en til samruna kemur skal óháður aðili staðfesta hlutfallslega skiptingu stofnfjár og annars eigin fjár sparisjóðsins og leggja mat á verðmæti umsamins endurgjalds sem fara skal til sjálfseignarstofnunar, með tilliti til þess hvort það sé sanngjarnt, eðlilegt og í réttu hlutfalli miðað við verðmæti hlutabréfa sem koma í hlut stofnfjáreigenda. Skal Fjármálaeftirlitið staðfesta matið. Í stjórn sjálfseignarstofnunar samkvæmt þessari málsgrein skulu eiga sæti einn fulltrúi sveitarfélaga á starfssvæði sparisjóðsins, einn fulltrúi skipaður af félags- og tryggingamálaráðherra, sem skal vera formaður stjórnar, og einn fulltrúi tilnefndur af menntamálaráðherra. Samþykktir sjálfseignarstofnunarinnar skulu staðfestar sameiginlega af félags- og tryggingamálaráðherra og menntamálaráðherra.
     b.      Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við samruna sparisjóða má óráðstafað eigið fé sameinaðs sparisjóðs ekki verða lægra en samanlagt óráðstafað eigið fé þeirra sparisjóða var fyrir samruna.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 110. gr. laganna:
     a.      19. tölul. orðast svo: 3. mgr. 63. gr. um að halda og uppfæra skrá yfir stofnfjáreigendur.
     b.      20. tölul. orðast svo: 3. mgr. 66. gr. um að setja og fylgja reglum um viðskipti með stofnfé.
     c.      21. tölul. orðast svo: 68. gr. um ráðstöfun arðs.
     d.      22. tölul. orðast svo: 2. mgr. 69. gr. um skyldur sparisjóðs.
     e.      23. tölul. fellur brott.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 112. gr. b laganna:
     a.      14. tölul. orðast svo: 68. gr. um ráðstöfun arðs.
     b.      15. tölul. fellur brott.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um nokkurn tíma hefur verið unnið að endurskoðun á ákvæðum VIII. kafla laga nr. 161/ 2002, um fjármálafyrirtæki, sem fjallar um sparisjóði. Upphaflega var nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði árið 2007 falið að vinna frumvarpsdrög en nefndin var leyst frá störfum áður en hún lauk vinnu sinni og er frumvarp þetta samið af sérfræðingum á vegum viðskiptaráðuneytisins. Ýmis ákvæði frumvarpsins eru þó beinn afrakstur nefndarvinnunnar.
    Eitt þeirra atvika sem ýttu við endurskoðun á ákvæðum um sparisjóði voru athugasemdir frá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem m.a. sneru að ákvæðum laganna um takmarkanir á atkvæðarétti í sparisjóðum og að framsal stofnfjárhluta væri háð samþykki viðkomandi sparisjóðsstjórnar.
    Fall viðskiptabankanna þriggja síðasta haust, sem og fall Sparisjóðabankans hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., í mars sl., ásamt sölu á rekstri og eignum Sparisjóðs Mýrasýslu til Nýja-Kaupþings banka hf., hefur einnig orðið sérstakt tilefni til þess að fara heildstætt yfir ákvæði VIII. kafla að því er varðar sparisjóði. Um sl. áramót voru 16 sparisjóðir hér á landi með starfsleyfi.
    Rekstrarafkoma sparisjóða var almennt mjög slæm á árinu 2008. Hjá flestum þeirra varð veruleg rýrnun á eigin fé, einkum vegna lækkunar á hlutabréfaverði og gangvirði eignarhluta í félögum. Þá var afkoma af kjarnastarfsemi fyrir skatta neikvæð hjá flestum þeirra.
    Stjórnir og fundir stofnfjáreigenda og hluthafa í SPRON, Byr og Sparisjóði Keflavíkur höfðu fyrir áramót samþykkt að stefna að sameiningu þessara þriggja sparisjóða. Sameining þeirra var háð því að tækist að koma SPRON upp fyrir lögbundið lágmarkseiginfjárhlutfall. Eins og áður er getið hafa mál þróast á þann veg að SPRON hefur verið yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu og bæði BYR og Sparisjóður Keflavíkur hafa séð sig knúna til að sækja um framlag úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 125/2008, svokallaðra neyðarlaga.
    Það er því ljóst að staða sparisjóðanna er erfið um þessar mundir og margir þeirra hafa þörf fyrir að auka stofnfé sitt til þess að styrkja eiginfjárgrundvöll og rekstrarhæfi, hvort sem nýtt stofnfé kemur frá ríkinu, sveitarfélögum eða öðrum aðilum sem vilja styrkja rekstur þeirra. Margir sparisjóðir hafa á síðustu árum hækkað stofnfé sitt mjög mikið og greitt stofnfjáreigendum ríflegan arð, sem hefur gengið á varasjóði þeirra. Vegna taprekstrar á síðasta ári er nú svo komið að í mörgum þeirra er varasjóður uppurinn og jafnvel orðinn neikvæður, þ.e. að bókfært stofnfé er orðið hærra en annað eigið fé. Við þær aðstæður verður að telja ólíklegt að nýir aðilar séu tilbúnir að leggja fram nýtt stofnfé, auk þess að gera verði ráð fyrir því sem skilyrði fyrir fjárframlagi ríkissjóðs skv. 2. gr. laga nr. 125/2008 að varasjóður sé ekki neikvæður.
    Eitt af markmiðum þeirra breytinga sem lagðar eru til á ákvæðum VIII. kafla laganna nú er að auðvelda sparisjóðum að sækja sér nýtt stofnfé, m.a. á grundvelli laga nr. 125/2008, með því að getað lækkað núverandi stofnfé til að mæta taprekstri síðustu ára og með þeim hætti jafnað varasjóð sparisjóðsins. Með þeirri aðgerð eru núverandi stofnfjáreigendur að taka á sig tap sparisjóðsins síðasta ár að því leyti sem það var umfram varasjóð. Miðað við núverandi löggjöf um sparisjóði er ekki talin vera fyrir hendi heimild til þess að lækka stofnfé.
    Í breytingum þeim sem lagðar eru til er einnig leitast við að styrkja rekstrargrundvöll og samvinnu sparisjóða. Um langt skeið hafa þeir haft með sér ýmiss konar samvinnu, t.d. um tölvuvinnslu, markaðssetningu og námskeiðahald, svo og ákvarðanir um vexti og gjaldskrárliði. Þessi samvinna hefur auðveldað minni sparisjóðum þátttöku í samkeppni á fjármálamarkaði. Samkeppniseftirlitið hefur samstarf sparisjóðanna til skoðunar og má búast við því að þrengt verði að möguleikum þeirra til samstarfs nema til komi sérstök ákvæði í lögum sem heimili þeim samstarfið. Er frumvarpinu ætlað að skilgreina heimildir sparisjóða til samstarfs.
    Þær meginbreytingar sem frumvarpið leggur til eru eftirfarandi:
          Eytt er vafa um félagaform sparisjóðanna.
          Felld eru brott öll ákvæði um hlutafélagasparisjóði og breytingu stofnfjársparisjóða í hlutafélagasparisjóði. Sparisjóðir verða eftirleiðis, verði frumvarpið að lögum, aðeins reknir sem stofnfjársparisjóðir.
          Staða og eðli stofnfjár er skýrð, sem og réttindi stofnfjáreigenda.
          Lagður er til lagarammi um heimildir sparisjóðanna til útvistunar verkefna og samstarfs.
          Reglur um arðgreiðslur einfaldaðar og þrengdar.
          Lagðar eru til reglur um lækkun (niðurfærslu) stofnfjár.
          Settar eru reglur um útgáfu stofnfjár sem veita sparisjóðunum víðtækari möguleika til þess að afla sér fjár.
          Einfaldaðar eru reglur um hækkun (endurmat) stofnfjár.
    Þar sem lagt er til að hin almennu ákvæði laganna, t.d. um meðferð eignarhluta, skuli gilda um sparisjóði með sama hætti og þau gilda um önnur fjármálafyrirtæki eru nokkrar greinar gildandi kafla laganna felldar brott. Er nánar vikið að þessu í athugasemdum við einstakar greinar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæðinu er ætlað að auka möguleika viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja á að halda úti starfsemi á fámennum markaðssvæðum með því að veita þeim heimild til þess að sinna þjónustu fyrir annarra hönd og í þeirra umboði. Hins vegar er sleginn sá varnagli að Fjármálaeftirlitið getur gripið í taumana ef það telur að viðkomandi starfsemi raski annaðhvort hagsmunum viðskiptamanna eða eftirlitshagsmunum.

Um 2. gr.


    Í greininni eru lagðar til umtalsverðar orðalagsbreytingar á ákvæðum 61. gr.
    Í fyrsta lagi er lagt til að skilgreint verði hvað sparisjóður teljist vera. Í greininni er kveðið á um að stofnfjársparisjóðir séu sjálfseignarstofnanir. Einnig eru eignarréttindi stofnfjáreigenda afmörkuð og er tekið fram í greininni að þau takmarkist við bókfært stofnfé og er sérstaklega tiltekið í greininni að þeir eigi enga hlutdeild í óráðstöfuðu eigin fé eða varasjóðum. Að þessu leytinu til er staða stofnfjáreigenda önnur en staða hluthafa í hlutafélagi. Er þetta í samræmi við gildandi rétt að því er varðar sparisjóði sem ekki hefur verið breytt í hlutafélög. Tengist skilgreiningin á sparisjóði og réttindum stofnfjáreiganda m.a. því að í frumvarpinu er hvorki gert ráð fyrir að stofnaðir verði nýir hlutafélagasparisjóðir né að unnt verði að breyta stofnfjársparisjóðum í hlutafélagasparisjóði. Þeir hlutafélagasparisjóðir sem eru með starfsleyfi við gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, halda þó rétti sínum til þess að mega kalla sig sparisjóði.
    Í öðru lagi er lagt til í greininni að ákvæðum hlutafélagalaga verði beitt um sparisjóði að því leyti sem við getur átt og tekið fram að ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri eigi ekki við um sparisjóði. Má segja að í ákvæðinu komi hin félagaréttarlega sérstaða sparisjóðanna vel fram og hún birtist m.a. í því að ekki er fyrir hendi heildstæð löggjöf um sparisjóði sem rekstrarform. Með ákvæðinu er verið að leitast við að fylla í þær eyður sem geta verið fyrir hendi þegar kemur að úrlausn félagaréttarlegra viðfangsefna innan sparisjóða. Ástæða þess að í ákvæðinu er vísað til hlutafélagalaga er sú að skv. 13. gr. laganna gildir sú meginregla að fjármálafyrirtæki skulu vera hlutafélög, með sparisjóði sem einu almennu undantekninguna frá þeirri reglu. Þá er í lögunum víða vísað til þess að ákvæði hlutafélagalaga skuli gilda í ýmsum tilvikum, en slíkar tilvísanir eru settar til þess að fella sparisjóði undir sömu reglur og gilda um önnur fjármálafyrirtæki, svo sem ákvæði 29. gr. um eigin hluti, ákvæði 50. gr. um stjórn fjármálafyrirtækis og ákvæði 4. mgr. 106. gr. um samruna. Það er því talið vera til samræmingar að í greininni sé veitt heimild til þess að beita ákvæðum hlutafélagalaga almennt um sparisjóði, enda rekist beiting þeirra ekki á önnur ákvæði laga. Með því að tiltaka sérstaklega að hlutafélagalögum verði aðeins beitt að því leyti sem við getur átt er verið að leggja áherslu á að ekki sé hægt að beita þeim þannig að fari gegn þeim grundvelli sem sparisjóðir byggja á, samkvæmt ákvæðum kaflans eða þannig að fari gegn tilgangi þeirra.
    Í 2. og 3. gr. frumvarpsins er vísað til þess að sparisjóðir setji sér samfélagslegt hlutverk. Ekki er gerð tilraun til þess að skilgreina nánar með hvaða hætti slíkt skuli gert, enda aðstæður eða þarfir mismunandi á milli starfssvæða hinna einstöku sparisjóða. Þó má gera ráð fyrir að þau verkefni sem sparisjóðir helst horfa til varði t.d. stuðning við íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarviðburði og líknarmál.

Um 3. gr.


    Ákvæði gildandi laga um stofnun sparisjóðs er að finna í 61. gr. laganna. Hér er lagt til að þau verði í 62. gr. Breytingar þær sem lagðar eru til eru minni háttar og fyrst og fremst til þess að mæta öðrum breytingum sem lagðar eru til á ákvæðum VIII. kafla laganna. Þó er rétt að vekja athygli á því að í greininni er að finna það nýmæli að í samþykktum sparisjóðs skuli vera gerð grein fyrir þeim samfélagslegu áherslum sem sparisjóðurinn ætlar að vinna að. Eins og fram kemur í umfjöllun um 2. gr. frumvarpsins er þetta í samræmi við markmið frumvarpsins að skerpa á samfélagslegu hlutverki sparisjóða, bæði inn á við í starfsemi þeirra og út á við þar sem þeir marka sér áherslur og láti til sín taka eftir því sem fjárhagsleg geta þeirra leyfir.

Um 4. gr.


    Ákvæði gildandi laga um stofnfjárbréf er að finna í 62. gr. laganna. Hér er lagt til að þau verði í 63. gr. Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðunum umfram það að gert er ráð fyrir að skrá yfir stofnfjáreigendur skuli öllum aðgengileg. Ákvæði 63. gr. gildandi laga, um réttindi stofnfjáreigenda, hafa verið einfölduð og að hluta til færð í 2. mgr. 61. gr.

Um 5. gr.


    Lagt er til að 64. og 65. gr. verði felldar brott. Að hluta til eru ákvæði greinanna flutt í 66. gr. en að öðru leyti er gert ráð fyrir því að hinar almennu reglur laganna, svo sem um veðsetningu stofnfjár, gildi. Af þessu leiðir að ákvæði um takmörkun á sölu og innlausn stofnfjár eru felld brott og gerir frumvarpið ráð fyrir að stofnfjáreigendur sem vilja af einhverjum orsökum afsetja stofnfjárbréf sín beri ábyrgð á sölunni. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafði enn fremur gert athugasemdir við það að þær takmarkanir sem væru á viðskiptum með stofnfé stönguðust á við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 6. gr.


    Eins og fram kemur í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins er lögð til einföldun á ákvæðum um viðskipti með stofnfjárbréf. Aflétt er þeim hömlum sem eru á sölu þeirra og gert ráð fyrir að viðskipti með stofnfjárbréf lúti almennum reglum um viðskipti með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum sem er að finna í lögunum. Þannig geta þeir sem ætla að eignast virkan eignarhlut í sparisjóði aðeins farið með eignarhlutinn að þeir tilkynni Fjármálaeftirlitinu um fyrirhuguð viðskipti áður en þau koma til framkvæmda, sbr. ákvæði VI. kafla laganna. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að nýr eigandi, eða sá sem eykur við eignarhlut sinn, öðlist ekki rétt yfir stofnfénu fyrr en hann hefur verið skráður í sérstaka skrá yfir stofnfjáreigendur.
    Lagt er til að aflétt verði þeim hömlum sem verið hafa á útboðsgengi útgefinna stofnfjárhluta en þess í stað sett lágmarksverð sem er nafnverð stofnfjár. Hafa hömlur gildandi laga stuðlað að ógagnsæi varðandi eðlilegt verð stofnfjárhluta og því að verðmæti hlutanna umfram uppreiknað nafnverð hefur eingöngu komið eftirmarkaði (stofnfjáreigendum) til góða en ekki útgefanda, þ.e. viðkomandi sparisjóði. Því er lagt til að það verð sem fæst fyrir útgefið stofnfé og er umfram nafnvirði þess sé fært á yfirverðsreikning með svipuðum hætti og þegar gefið er út hlutafé. Varasjóður sem þannig kann að myndast telst ekki til stofnfjár heldur til annars eigin fjár sem síðan má nýta til að mæta tapi síðar.
    Þá er lagt til að hver sparisjóður setji reglur um viðskipti með stofnfé. Er Fjármálaeftirlitinu ætlað að samþykkja þær og hafa þar af leiðandi eftirlit með að þeim sé fylgt. Enn fremur getur Fjármálaeftirlitið, telji það tilefni til, sett leiðbeinandi tilmæli um viðskipti með stofnfjárbréf.

Um 7. gr.


    Í greininni er að finna nýmæli sem varðar heimild til lækkunar á stofnfé til að jafna tap sem ekki verður jafnað með öðrum hætti. Aðeins er heimilt að lækka stofnfé til þess að jafna tap og því er óheimilt að lækka stofnfé af öðrum ástæðum, svo sem til þess að greiða það út til stofnfjáreigenda. Í greininni er kveðið á um að tillaga um lækkun stofnfjár skuli hið minnsta hljóta tvo þriðju atkvæða þeirra aðila sem mætt er fyrir á fund stofnfjáreigenda þar sem tillagan er tekin til afgreiðslu. Enn fremur skal Fjármálaeftirlitið samþykkja ráðstöfunina.
    Miðað við þá stöðu sem nokkrir sparisjóðir eru í, þ.e. að bókfært stofnfé er hærra en eigið fé (varasjóðir neikvæðir), er nauðsynlegt að fyrir hendi séu ákvæði sem rétt geta af slíkan halla. Að öðrum kosti er ólíklegt að nýir aðilar fáist til að leggja slíkum sparisjóðum til aukið eigið fé. Með ákvæðinu er einnig tekinn af vafi um að ríkið fái hlutdeild í samræmi við það framlag sem það leggur í sparisjóði á grundvelli 2. gr. laga nr. 125/2008. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda með frumvarpinu.

Um 8. gr.


    Í gildandi lögum er að finna ákvæði sem heimila endurmat stofnfjár til hækkunar. Er heimild þessi óháð því hver afkoma sparisjóðs er.
    Ákvæði um endurmat til hækkunar eru færð í 68. gr. og tilheyra samkvæmt frumvarpinu ákvæðum um ráðstöfun hagnaðar. Í greininni er lögð til einföldun og þrenging á gildandi ákvæðum um arðgreiðslur. Í fyrsta lagi er lagt til að óheimilt verði að greiða arð hjá þeim sparisjóðum sem ekki skila hagnaði. Í öðru lagi er í greininni kveðið á um hámark varðandi þá hagnaðarhlutdeild sem nýta má til arðgreiðslu. Að því leyti sem hagnaður sparisjóðs er ekki greiddur til stofnfjáreigenda í formi hækkunar á stofnfé eða arðgreiðslu myndar hann varasjóð. Um er að ræða nokkra breytingu og takmörkun á núverandi heimildum sparisjóða til arðgreiðslu þar sem heimilt er að greiða út arð þrátt fyrir að tap hafi verið af rekstri sparisjóðsins. Til þess að ekki komi til arðgreiðslu eftir langvarandi taprekstur, þótt hagnaður hafi verið á rekstri sparisjóðs eitt reikningsár, er lagt til að afkoma síðustu fimm reikningsára liggi til grundvallar arðgreiðslu. Enn fremur er lagt til að í þeim tilfellum þar sem um beina útgreiðslu arðs til stofnfjáreigenda er að ræða skuli vera tiltekið hámark á henni.
    Verði tillögur frumvarpsins að lögum verður sparisjóðum heimilt að ráðstafa þeim hagnaði sem renna má til stofnfjáreigenda með tvennum hætti. Annars vegar með því að hækka stofnfé, þ.e. með því að greiða hann inn á stofnfjárreikning stofnfjáreigenda og hækka þannig nafnverð stofnfjár og hins vegar til beinnar arðgreiðslu.
    Ónýtt heimild til hækkunar á stofnfé flyst ekki milli ára. Með því að taka af beinar takmarkanir á heimildum til hækkunar á stofnfé gefur það stjórn sparisjóðs meiri möguleika til þess að veita stofnfjáreigendum hlutdeild í hagnaði án þess að þurfa að greiða hann út í formi arðs. Í greininni er lögð til sú meginregla að 50% hagnaðar verði læst inni í sparisjóði sem varasjóður til þess að mæta hugsanlegu tapi í framtíðinni. Kunna hömlur þessar að draga úr áhuga aðila á því að setja fé í sparisjóði, en þeim er ætlað að þjóna því markmiði að byggja upp varasjóði í sparisjóðum.
    Þá er lagt til að ekki geti komið til arðgreiðslna í sparisjóðum þar sem varasjóðir eru neikvæðir, þ.e. bókfært stofnfé hærra en bókfært eigið fé.
    Vissulega eru lagðar til miklar þrengingar á heimildum til greiðslu arðs. Í ljósi þess að búast má við að allflestir starfandi sparisjóðir muni þurfa á framlagi úr ríkissjóði að halda til þess að geta haldið áfram starfsemi sinni þykir ekki óeðlilegt að slíkar takmarkanir séu í gildi á meðan verið er að styrkja grunn sparisjóðanna.

Um 9. gr.


    Í reynd er mjög á reiki hvaða raunverulegu heimildir til samstarfs sparisjóðir hafa samkvæmt gildandi lögum. Til þess að eyða þeim vafa er lagt til að þeim sé hverjum um sig heimilt að útvista verkefni sem upp eru talin í greininni. Upptalning þessi er tæmandi. Þannig eru hvorki kostnaðarlegir útreikningar sem eru forsenda verðlagningar heimilir né heldur annars konar verðsamráð.
    Ákvæði greinarinnar gera enn fremur ráð fyrir því að fleiri en einn sparisjóður geti útvistað verkefni til eins og sama aðila. Forsenda slíks er sú að þau viðskipti séu gerð á almennum viðskiptalegum forsendum, þ.e. að fullt endurgjald komi fyrir, og að sparisjóðir beri hver um sig, eftir sem áður, ábyrgð á að farið sé að lögum og reglum, svo og ábyrgð á samskiptum sínum við eftirlitsaðila, þ.m.t. skýrsluskilum. Ákvæði greinarinnar víkja því ekki til hliðar skyldu þeirra til þess að hlíta t.d. ákvæðum samkeppnislaga og rýrir á engan hátt möguleika samkeppnisyfirvalda til þess að hafa eftirlit með starfsemi þeirra að því er varðar verkefnasvið þess.

Um 10. gr.


    Lagt er til að 70.–76. gr. laganna falli brott.
    Núgildandi 70. gr. fjallar um skiptingu eignarhluta og atkvæða og gerir frumvarpið ráð fyrir því að hin almennu ákvæði laganna um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum gildi um sparisjóði jafnt og um önnur fjármálafyrirtæki. Takmörkun á 5% atkvæðavægi sem er að finna í 70. gr. núgildandi laga gengur, að mati Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), gegn ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Er lagt til í frumvarpinu að takmörkun þessi sé felld brott. Hin almennu ákvæði laganna um meðferð eignarhluta gilda um sparisjóði, verði frumvarpið að lögum.
    Í 71. gr. núgildandi laga er að finna sérákvæði um svokallaða sveitarfélagasparisjóði. Enginn slíkur er starfandi. Í frumvarpinu er auk þess lagt til að sparisjóðir skuli hafa minnst 30 stofnfjáreigendur. Ekkert er því til fyrirstöðu að sveitarfélög séu eða verði í hópi stofnfjáreigenda. Í 2. gr. frumvarpsins (um breytingu á 61. gr.) er enn fremur tekið á sérstöðu þeirra sparisjóða þar sem sveitarfélög eru, eða kunna að verða, meirihlutaeigendur stofnfjár.
    Ekki þykir ástæða til þess að sérstök ákvæði séu um stjórn sparisjóðs, en slík ákvæði er að finna í 72. gr. gildandi laga. Ítarleg ákvæði eru í lögunum um stjórnir fjármálafyrirtækja og gilda þau um sparisjóði sem og önnur fjármálafyrirtæki, verði frumvarp þetta að lögum.
    Lagt er til að sparisjóðir verði stofnfjársparisjóðir. Ekki er gert ráð fyrir því að unnt verði að setja á stofn hlutafélagasparisjóð eða umbreyta stofnfjársparisjóði í hlutafélagasparisjóð. Því er lagt til að þær greinar gildandi laga, þ.e. 73.–76. gr., sem fjalla um hlutafélagasparisjóði eða breytingu stofnfjársparisjóðs í hlutafélagasparisjóð falli brott.

Um 11. gr.


    Eins og kemur fram í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins er lagt til að afnumið verði ákvæði gildandi laga um lögboðið útboðsgengi stofnfjár. Reynist eftirspurn eða markaðsaðstæður þannig að fáist umfram nafnverð fyrir stofnfjárhluti myndast yfirverðsreikningur. Slíkur reikningur telst með sem eiginfjárþáttur A.

Um 12. gr.


    Þrátt fyrir þá stefnumörkun sem fram kemur í tillögum frumvarpsins að sparisjóðir skuli eftirleiðis reknir sem stofnfjársparisjóðir kunna þær aðstæður að koma upp að ekki verði hjá því komist að sameina rekstur sparisjóðs og annars fjármálafyrirtækis. Lögð er til einföldun á því ferli sem slík sameining byggist á. Er ekki gert ráð fyrir að stofna þurfi hlutafélag um sparisjóðinn áður en til sameiningar kemur né innköllun krafna.
    Auk framangreinds er lagt til að séu fyrir hendi fjármunir á móti óráðstöfuðu eigin fé skuli stofnuð sjálfseignarstofnun með skilgreint samfélagslegt hlutverk, þangað sem fjármunir þessir renna. Ekki er gert ráð fyrir að sjálfseignarstofnunin verði tengd hagsmunum þeim sem felast í áframhaldandi rekstri hins sameinaða fjármálafyrirtækis. Er það breyting frá gildandi lögum sem tiltaka að megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar skuli vera að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins.

Um 13. og 14. gr.


    Vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er nauðsynlegt að gera breytingar á ákvæðum um viðurlög. Sem dæmi má nefna að sömu ákvæði gilda, verði frumvarpið að lögum, um meðferð eignarhluta í sparisjóðum, þ.m.t. ákvæði um virkan eignarhlut, og gilda um önnur fjármálafyrirtæki.

Um 15. gr.


    Ákvæði greinarinnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til viðamiklar breytingar á lagaumhverfi starfandi sparisjóða. Þær meginbreytingar sem frumvarpið leggur til eru í fyrsta lagi að eyða vafa um félagaform sparisjóðanna, í öðru lagi að fella brott öll ákvæði um hlutafélagasparisjóði og breytingu stofnfjársparisjóða í hlutafélagasparisjóði en samkvæmt því verði sparisjóðir eftirleiðis aðeins reknir sem stofnfjársparisjóðir, í þriðja lagi að skýra stöðu og eðli stofnfjár auk réttinda stofnfjáreigenda, í fjórða lagi að leggja til lagaramma um heimildir sparisjóðanna til útvistunar verkefna og samstarfs, í fimmta lagi að einfalda og þrengja reglur um arðgreiðslur, í sjötta lagi að setja reglur um útgáfu stofnfjár sem muni veita sparisjóðunum víðtækari möguleika til þess að afla sér fjár og í sjöunda lagi að einfalda reglur um endurmat stofnfjár og að setja reglur um niðurfærslu stofnfjár, einkum í þeim tilvikum að sparisjóður í vanda sækist eftir nýju stofnfé. Síðasta atriðið er forsenda þess að fjármálaráðherra geti nýtt sér heimildarákvæði hinna svokölluðu neyðarlaga um framlag úr ríkissjóði til einstakra sparisjóða í rekstrarerfiðleikum. Með niðurfærslu stofnfjár er í raun verið að tryggja að ríkissjóður fái eðlilega hlutdeild í eigin fé sparisjóðs ef til þess kemur að hann inni af hendi framlag samkvæmt ákvæðum neyðarlaganna um heimild til að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans. Í þessu sambandi var í 6. gr. fjárlaga 2009 gert ráð fyrir að heimilt væri að leggja til allt að 14 milljarða kr. stofnfé eða hlutafé á grundvelli laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni eitt og sér hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Hins vegar má gera ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja um 14–18 milljarða kr. stofnfé til sparisjóðanna á grundvelli neyðarlaganna en þar sem um eiginfjárframlag yrði að ræða væri það ekki gjaldfært í rekstrarreikning ríkissjóðs. Aftur á móti mundi slík ráðstöfun, ef af henni verður, hafa áhrif á sjóðstreymi og lánsfjárþörf ríkisins.